Skip to main content
Silja Bára - Rektorskjör 2025

Áherslur

Ég hlakka til að eiga samtal við stúdenta og starfsfólk á komandi vikum og kynna nánar hvernig rektor ég vil vera.

Fjármögnun háskólastigsins verði sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum

Af hverju: Háskólar eru með mikilvægustu innviðum samfélagsins, þeir veita mikilvæga starfsmenntun, efla gagnrýna hugsun og miðla þekkingu og færni til stúdenta og samfélagsins alls auk þess að vera vagga nýsköpunar og rannsókna sem eru forsendur hagsældar þjóða. Viðvarandi vanfjármögnun Háskóla Íslands dregur úr getu skólans til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Þrátt fyrir þröngan kost hefur starfsfólk háskólans stóraukið rannsóknaframlag sitt, eins og sést á stöðu skólans á alþjóðlegum matslistum. Það er kominn tími til að stjórnvöld standi við gefin fyrirheit um fjármögnun háskólastigsins og beini fé í nýsköpun og rannsóknum heim til háskóla og rannsóknasjóða.

Hvernig: Rektor leiði samtal skólans við stjórnvöld, þingheim, atvinnulífið og íslenskt samfélag um mikilvægi háskóla fyrir efnahagslega hagsæld og velferð þjóðarinnar og þrýsti á um efndir gefinna loforða.

Öflugar rannsóknir og akademískt frelsi

Af hverju: Eitt meginmarkmið háskóla er að sinna rannsóknum. Akademískt frelsi rannsakenda er grundvöllur fyrir rannsóknarstarfi þar sem fræðin ráða för en ekki fyrst og fremst ákveðnar áherslur stjórnvalda og atvinnulífs á hverjum tíma. Þannig tryggjum við öflugt rannsóknarstarf og þekkingaruppbyggingu til framtíðar. Því er mikilvægt að rannsakendur hafi frelsi til að skilgreina sínar rannsóknaáherslur og nægan tíma til að sinna rannsóknum í sínum störfum. Þá þarf að tryggja aðstöðu þeirra til að vinna styrkumsóknir, sem og að veita svigrúm til að sinna framkvæmd og umsýslu rannsóknarverkefna.

Hvernig: Efla samtal við stjórnvöld um stefnumótun og fjármögnun rannsókna og innviða. Leitast eftir jafnvægi milli hagnýtra rannsókna og grunnrannsókna, sem eru gjarnan grundvöllur að hagnýtum rannsóknum í framtíðinni.

Betri starfsaðstæður, meiri starfsánægja og sterkara háskólasamfélag

Af hverju: Góður vinnustaður er vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel, helgar sig starfi sínu og er stolt af vinnustaðnum. Rannsóknir á starfsumhverfi í Háskóla Íslands sýna að þar þarf að gera betur og kannanir á líðan nemenda benda í sömu átt. Inngrip til þess að bæta líðan hafa hingað til beinst að einstaklingum þótt vitað sé að stofnanainngrip séu markvissari og skilvirkari.

Hvernig: Rýna þarf fyrirliggjandi gögn, t.d. gæðaskýrslur, og móta úrbætur á grundvelli þeirra. Ef gögn skortir þarf að virkja sérfræðinga skólans í að afla þeirra. Styrkja þætti sem stuðla að uppbyggilegu og aðlaðandi umhverfi fyrir starfsfólk og nemendur. Skapa deildum og sviðum aðstæður til að móta úrbætur á eigin forsendum.

Sanngjarn og skilvirkur skóli

Af hverju: Skilvirkni hefur aukist innan Háskóla Íslands þrátt fyrir að stúdentum hafi fjölgað tvöfalt frá aldamótum með eingöngu þriðjungsfjölgun kennara – sem engu að síður birta tvöfalt meira. Viðvarandi vanfjármögnun hefur hindrað nauðsynlega fjölgun akademísks starfsfólks. Þá er a.m.k. þriðjungur háskólakennara í mikilli hættu á kulnun og jafnvel hærra hlutfall doktorsnema.

Hvernig: Háskólaráð hefur þegar markað stefnu um að jafna greiðslur fyrir kennslu og áfram þarf markvisst að vinna að því. Rektor leiði víðtækt samráð um framhald vinnunnar sem öll svið taki þátt í og geri það í samstarfi við stéttarfélög starfsfólks.

Gera þarf stórátak í fjölgun fastráðinna akademískra starfsmanna, styrkja og samhæfa stoðþjónustu vegna kennslu og rannsókna svo að akademískt starfsfólk geti sinnt sinni kjarnastarfsemi, sem er að mennta og rannsaka. Leitast þarf við að draga úr óþarfa skriffinnsku og efla rafrænar lausnir í stjórnsýslu.

Jafnrétti í víðum skilningi – leiðarljós í starfsemi HÍ

Af hverju: Margbreytileiki rennir stoðum undir öflugt háskólastarf en einsleitni takmarkar það. Tryggja þarf aðgengi fjölbreyttra hópa að námi og störfum við Háskóla Íslands og virða þarf mannréttindi í hvívetna.

Hvernig: Leggja áherslu á samráð og samvinnu við jaðarsetta hópa til að tryggja sem best aðgengi og þátttöku allra í háskólasamfélaginu. Nýta þekkingu innan skólans til ryðja úr vegi áþreifanlegum, félagslegum og menningarlegum aðgengishindrunum. Efla sálfræði- og félagsráðgjöf til nemenda, nýta betur möguleika til fjarnáms, efla frumkvæði og festa átaksverkefni á borð við Sprett í sessi.

Framtíðin í fyrirrúmi – sjálfbærni í forgrunni

Af hverju: Háskóli Íslands þarf að vera leiðandi afl í íslensku samfélagi og halda úti námi sem getur breyst í takt við áskoranir framtíðar. Leggja þarf áherslu á allar hliðar sjálfbærni, þ.e. loftslags-, efnahags- og samfélagsmál. Óvíða er meiri þekking á þeim en við HÍ og við þurfum að nota þá þekkingu til að auka framlag skólans. Skapa þarf víðtæka samstöðu um mikilvægi málaflokksins og virkja allar deildir til þátttöku í breytingum í þágu sjálfbærni.

Hvernig: Rektor verði öflugur málsvari sjálfbærni og loftslagsmála á opinberum vettvangi. Stutt verði við þverfræðilegt nám og rannsóknir á eðli og afleiðingum loftslagsbreytinga og hvernig megi þróa mótvægis- og aðlögunaraðgerðir. Mótuð verði langtímaáætlun um menntun og rannsóknir sem þjóna heimsmarkmiðunum og tryggja að við getum brugðist við framtíðaráskorunum. Tryggja þarf að loftslagsmál séu rauður þráður í allri ákvarðanatöku, en ein leið til þess væri að setja á fót embætti aðstoðarrektors á sviði sjálfbærni. Þá þarf HÍ að vera í virku samstarfi við ráðuneyti og stofnanir sem starfa á þessu sviði til að miðla þekkingu inn í ákvarðanatöku hins opinbera.

Nútímalegt nám og kennsla

Af hverju: Mikilvægt er að HÍ skili út í samfélagið vel menntuðum nemendum sem geta tekist á við vandamál t.d. á sviði loftslagsvár, aukinnar skautunar í samfélögum heimsins og bakslags í jafnréttisbaráttu, svo dæmi séu tekin. Ógagnrýnin notkun á gervigreind er einnig aðkallandi áskorun við menntun og kallar á breytta kennslu og námsmat. Mikilvægt er að svara kalli eftir aukinni áherslu á tæknigreinar en jafnframt að við hlúum að þeim greinum sem skapa innviði sem styðja við slíkar áherslur og skapa þekkingu til að skilja og greina áhrif tækniþróunar á samfélagið.

Hvernig: Vinna markvisst með menntun, nám og kennslu á þverfaglegum grunni og styrkjum stoðir almennrar menntunar, t.d. með því að innleiða grunnhæfniþætti sjálfbærni. Samhæfa þarf áköll um aukið fjarnám og annan sveigjanleika í námi annars vegar og úrræði vegna (mis)notkunar gervigreindar hins vegar. Þetta kallar á aukið samstarf milli stoðþjónustu (t.d. prófaskrifstofu, Landsbókasafns og Ritvers) og fræðasviða um fjölbreyttar lausnir við námsmat og aukinn stuðning við nemendur og kennara að bera kennsl á kosti og galla gervigreindarinnar.