Skip to main content
Silja Bára - Rektorskjör 2025

Kynning

Háskóli Íslands er leiðandi afl í íslensku samfélagi og styrkur hans er mikilvæg forsenda vaxtar og velgengni íslensks samfélags.

Ágæta samstarfsfólk,

nú hefur starf rektors Háskóla Íslands verið auglýst og með þessum pósti vil ég staðfesta það sem hefur komið fram í fjölmiðlum, að ég býð mig fram með það að markmiði að leiða starf skólans í þjónustu við samfélagið. Í auglýsingu um starfið koma fram að til að embættisgengir séu „þeir einir sem hafa prófessorshæfi, leiðtogahæfileika og skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir háskólann, ríka samskiptahæfni og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun.“ Ég segi með stolti að ég tel mig uppfylla allar þessar kröfur.

Ég varð prófessor við Stjórnmálafræðideild 2020 en hef starfað við Háskóla Íslands í tæpa tvo áratugi, fyrst sem stundakennari og aðjunkt III, þá sem forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og seinna aðjunkt I. Samhliða því starfi lauk ég doktorsprófi frá University College Cork á Írlandi og var í kjölfarið ráðin sem lektor við Stjórnmálafræðideild.

Frá árinu 2022 hef ég verið fulltrúi háskólasamfélagsins í Háskólaráði HÍ sem er verðmætur undirbúningur fyrir starf rektors. Þar hef ég öðlast dýrmæta innsýn í flesta þætti starfsemi skólans, en samhliða störfum mínum fyrir HÍ hef ég einnig átt sæti í ýmsum stjórnum og nefndum. Utan HÍ hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, er t.d. formaður Rauða krossins á Íslandi og leiddi stefnumótun félagsins fyrir árin 2020-2030. Þá var ég síðasti formaður Jafnréttisráðs árin 2019-2021. Áhugasvið mín eru fjölbreytt sem endurspeglast að einhverju leyti í því að ég hef komið inn í kennslu á öllum fimm sviðum skólans.

Þótt ég vinni mikið þá hef ég gaman af því að sinna áhugamálum, sem eru allt frá krosssaumi til kraftlyftinga. Ég les mikið, er formaður húsfélagsins(!) og tek þátt í samfélaginu í Hrísey, þar sem ég á hlut í húsi (og sjötuga Ferguson dráttarvél).

Ég býð mig fram til rektors Háskóla Íslands til að berjast fyrir hagsmunum skólans, efla starf hans og bæta starfsaðstæður starfsfólks og stúdenta. Eins og sjá má af rýrri umfjöllun um háskóla í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar þarf að þrýsta verulega á þar. Ég hef mikla reynslu af því að koma fram á opinberum vettvangi, hvort sem er vegna fræðistarfa, greininga eða í málsvarahlutverki og tel mig vel til þess fallna að vera talsmaður skólans opinberlega.

Markmið mitt er að viðhalda og auka gegnsæi á öllum stigum stjórnsýslu skólans. Ég vil vinna að gagnvirku samráði, að stærri mál verði kynnt á deildarfundum og í sviðsstjórnum og að stjórnendur hljóti þjálfun í að eiga samtöl og samráð til að leysa úr áskorunum sem skólinn stendur frammi fyrir. Ég vil leita eftir umsögnum sviðsstjórna um allar stærri ákvarðanir sem rektor þarf að taka og tryggja þannig virkt samráð um þær. Við starfsfólk HÍ höfum borið uppi starfsemi skólans í gegnum fjármálahrun og heimsfaraldur, oft með sjálfboðnu starfi og af fórnfýsi. Það ekki hægt að reka skólann með þessu móti til lengri tíma. Fjárveitingar verða að vera í takt við umfang starfseminnar og þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Ég vil nýta krafta okkar og styrkleika sem liðsheildar til að ná fram stuðningi stjórnvalda til að efla skólann.

Háskóli Íslands er leiðandi afl í íslensku samfélagi og styrkur hans er mikilvæg forsenda vaxtar og velgengni íslensks samfélags. Styrkur skólans felst í öflugu starfsfólki og þá auðlind vil ég bæði nýta og verja. Um leið vil ég tryggja aukið samráð við stúdenta um þróun náms og framtíð skólans, t.d. með því að beita notendasamráði þar sem því verður við komið. Ég hlakka til að eiga samtal við stúdenta og starfsfólk á komandi vikum og kynna nánar hvernig rektor ég vil vera.

Hér á síðunni eru helstu áherslumál mín. Þá má fylgjast með framboðinu á Facebook síðu minni.